Frumheimildir og eftirheimildir

Mikilvægt er að vita hvort tiltekin heimild er byggð á öðrum heimildum eða ekki. Það er m.ö.o. nauðsynlegt að gera skýran greinarmun á frumheimildum og eftirheimildum.

Frumheimildir

Frumheimild er upphafleg heimild um e-ð og byggist því ekki á neinni annarri heimild.

Dæmi:

  • frásögn sjónarvotts af atburði
  • fræðirit sem birtir nýja kenningu.
  • forn handrit og skjöl
  • dómar
  • kirkjubækur
  • bréf

Í frumheimildum er enginn milliliður sem hefur túlkað gögnin.

Eftirheimildir

Eftirheimildir byggjast á öðrum heimildum og fela því í sér val og túlkun á frumheimildum. Við þurfum ekki að vera sammála því vali eða þeirri túlkun.

Þegar margir hafa túlkað sömu frumgögn þarf að vega og meta meðferð þeirra á heimildum. Eru augljósar þversagnir? Eru augljós göt í umfjöllun?

Kennslubækur og fræðirit fyrir almenning
Algengt er að nemendur noti kennslubækur sem heimildir í ritgerðum. Þetta ber að varast þar sem kennslubækur eru oft algjörar eftirheimildir, þ.e. þær birta engar nýjar staðreyndir eða hugmyndir.

Sum fræðirit eru skrifuð sérstaklega fyrir almenning og eiga ekki að vera framlag til fræðilegrar umræðu. Mörg rit af þessu tagi eru hreinar eftirheimildir og nýtast því ekki í fræðilegum ritgerðum.

HVORT Á AÐ NOTA FRUMHEIMILD EÐA EFTIRHEIMILD?

Það á alltaf að nota frumheimild ef mögulegt er. Stundum er þó óhjákvæmilegt að nota eftirheimild í stað frumheimildar ef ekki er hægt að nálgast frumheimildina með góðu móti. Stundum er eðlilegt að nota einungis eftirheimildir t.d.:

  • erfitt að nálgast frumheimild, hún er ekki til á landinu og fæst ekki í millisafnaláni
  • áreiðanlegar útgáfur á textum í stað handrita eða bréfa
  • frumheimild krefst mikillar sérfræðiþekkingar sem ekki er hægt að ætlast til að nemendur hafi
  • Athugið þó að ólíkar túlkanir á frumheimildum geta verið mjög áhugaverðar frá fræðilegu sjónarmiði.
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is