Heimildamat

Ekki er nóg að tína til heimildir í fræðilega ritgerð því allar heimildir verður að meta og enga heimild má nota gagnrýnislaust.

Við mat á heimild er nauðsynlegt að spyrja hversu áreiðanleg hún er og hversu miklu máli hún skiptir fyrir viðfangsefnið. Hefur höfundurinn góða þekkingu á viðfangsefninu? Færir hann góð rök fyrir sínum hugmyndum? Nýtir hann heimildir máli sínu til stuðnings? Notar hann frumheimildir eða eftirheimildir? Stenst verkið almennar kröfur um heimildanotkun og heimildatilvitnanir?

Höfundur fræðirits verður alltaf að sýna mjög skýrt á hverju verk hans er byggt. Fræðileg verk þurfa því að hafa:

A. Heimildaskrá með fullnægjandi upplýsingum um heimildirnar.
B. Tilvísanir sem sýna hvernig heimildirnar í heimildaskránni voru notaðar.

Kennslubækur og alþýðleg fræðirit standast yfirleitt ekki þessar kröfur.

SAMANBURÐUR
Ekki er nóg að kanna  hverja heimild fyrir sig heldur er nauðsynlegt að bera saman heimildir til að sjá um hvað fræðimenn eru sammála og hvað ekki. Sé ágreiningur milli fræðimanna verður að skoða vandlega þær röksemdir sem þeir hafa fram að færa.

HÖFUNDUR
Gott er að hafa í huga hver höfundur heimildarinnar er. Að öllu jöfnu hljóta verk viðurkenndra fræðimanna að vega þyngra en verk annarra. Virtir fræðimenn hafa þó ekki alltaf víðtæka þekkingu á því sem þeir fjalla um.

VETTVANGUR
Mikilvægt er að huga að því hvar fræðilegt verk birtist. Greinar sem birtast í fræðitímaritum hafa t.d. meira gildi en greinar í dagblöðum. Fræðitímarit eru líka misjafnlega vel ritrýnd því sum birta langflestar innsendar greinar en önnur birta aðeins lítinn hluta þeirra. Bókaforlög eru líka misjöfn.

Sjá einnig sérstaklega um mat á netheimildum hér.

Fræðirit sem eru sérsniðin að „hinum almenna markaði“ eru varasöm. Þau hafa ekki þann tilgang að vera framlag til fræðilegrar umræðu. Mörg eru algjörar eftirheimildir og ekki heppilegar sem fræðilegar heimildir.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is