Heimildir

Í háskólanámi er algengt að nemendur skrifi ritgerðir sem byggjast á því að þeir safni og vinni úr upplýsingum um ákveðið efni í heimildum. Slíkar ritgerðir eru oft kallaðar heimildaritgerðir.

Ritgerðir eiga helst að byggjast á einni meginspurningu, svonefndri rannsóknarspurningu, og markmið ritgerðarinnar er að svara henni á skýran og skilmerkilegan hátt. Til að gera það þarf nemandinn að finna heimildir, kynna sér efni þeirra, velja úr þeim og leggja mat á þær. Auk þess þarf nemandinn að fella heimildirnar að eigin texta þannig að ritgerðin myndi eina samhangandi heild. Hann þarf líka að gæta þess að skrá heimildirnar, bæði í heimildatilvísunum og heimildaskrá, svo lesandanum sé ljóst hvaða heimildir voru notaðar í ritgerðinni og á hvaða hátt.

Frumheimildir og eftirheimildir

Nauðsynlegt er að gera skýran greinarmun á frumheimildum og eftirheimildum. Frumheimild er upphafleg heimild um eitthvert tiltekið efni en eftirheimild byggist á öðrum heimildum og felur því yfirleitt í sér einhvers konar túlkun á þeim. Vegna þessa er betra að nota frumheimild um eitthvert tiltekið efni ef þess er nokkur kostur.

Heimildamat

Sá sem skrifar ritgerð þarf að leggja mat á áreiðanleika þeirra og gagnsemi þeirra heimilda sem hann hefur aflað því það er ekki sjálfgefið að allar heimildir nýtist vel. Til dæmis er yfirleitt lítið gagn í heimildum sem eru bara endursagnir á öðrum heimildum og birta því ekki neina nýja þekkingu (sbr. margar kennslubækur eða fræðirit fyrir almenning) eða heimildum sem eru hreinlega orðnar úreldar. Best er að styðjast eingöngu við ritrýndar heimildir ef mögulegt er, þ.e. heimildir sem eru lesnar yfir af sérfræðingum og höfundur þarf að endurskoða áður en þær eru samþykktar til birtingar. Einnig er mikilvægt að heimildirnar standist eðlilegar kröfur um heimildanotkun og heimildatilvitnanir. Stundum er þó erfitt eða jafnvel útilokað að finna góðar heimildir um tiltekið efni og þá verður einfaldlega að nota þær heimildir sem tiltækar eru og gera lesandum grein fyrir takmörkunum þeirra.

Netheimildir

Á netinu eru óteljandi vefsíður og aragrúi upplýsinga. Sumir vefir eru góðir og áreiðanlegir, aðrir ekki. Því er mikilvægt að gera sér grein fyrir því hvað er góð netheimild og hvað ekki.

Heimildaskráning

Heimildaskráning felst í því að skrá eftir tilteknum reglum þær heimildir sem notaðar eru og vísað er til í ritsmíð. Tilvísanir eru í meginmálinu sjálfu en full skráning hverrar heimildar er í heimildaskrá sem yfirleitt er aftast.

Heimildaskráningarkerfi

Til eru ýmis kerfi um heimildatilvísanir og heimildaskrár, t.d. APA-kerfið eða Chicago-kerfið. Þetta getur vissulega verið mjög ruglingslegt en þó ber að hafa í huga að öll heimildaskráningakerfi sýna nokkurn veginn sömu upplýsingar. Þess vegna er yfirleitt auðvelt fyrir þann sem kann eitt kerfi vel að tileinka sér önnur kerfi.

Heimildaskráningarforrit

Til eru forrit sem auðvelda fólki að halda utan um og skrá heimildir, t.d. EndNote. Sum eru ókeypis en greiða þarf fyrir önnur. 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is