Netheimildir

Heimildir á netinu eru af ýmsu tagi. Þar er að finna vefsíður, PDF-skjöl, ritvinnsluskjöl, bækur og bókarhluta, alfræðiorðabækur, tímarit, gagnasöfn, myndbönd, sjónvarpsþætti, spjallrásir, fréttir og margt fleira.

Kennarar, fræðimenn og nemendur nota netið í síauknum mæli til að afla sér upplýsinga enda er þar hafsjór af fróðleik. Eins og með prentaðar heimildir er nauðsynlegt að kanna netheimildir vandlega og leggja mat á þær. Ekki má treysta því í blindni að upplýsingar sem fram koma á netinu séu réttar. Það er heldur ekki öruggt að þær síður sem birtast efst á skjánum þegar leitarorð er slegið inn í leitarvél séu bestu eða áreiðanlegustu síðurnar um tiltekið viðfangsefni.

NOKKUR ATRIÐI ER ÁGÆTT AÐ HAFA Í HUGA ÞEGAR LAGT ER MAT Á VEFSVÆÐI EÐA EINSTAKA VEFSÍÐUR

Hvaðan koma upplýsingarnar?
Á netinu er mjög mikið efni sem lítið eða ekkert eftirlit er með, þ.e. efni sem ekki er ritstýrt og enginn er ábyrgur fyrir. Í raun getur hver sem er skrifað hvað sem er á netinu. Oft er höfundar efnis ekki getið og stundum er mjög flókið eða jafnvel útilokað að hafa uppi á höfundi eða ábyrgðarmanni.

Athugið hver ber ábyrgð á efni síðunnar, sé þær upplýsingar að finna á annað borð. Eru greinar og annað efni á vefnjum merkt ákveðnum höfundi eða höfundum? Eru höfundar fræðimenn eða áhugamenn um efnið?

Er vísað til heimilda á þessum tiltekna vef? Ef svo er: Hvernig heimildir eru það? Er um að ráða áreiðanlegar heimildir, t.d. ritrýndar greinar, eða t.d. Wikipediu eða bloggsíður?

Framsetning efnis
Hvernig er efnið sett fram? Er uppsetningin einföld eða flókin? Virðist vefurinn hannaður af fagmönnum? Er efnið sett upp með skipulegum hætti?

Er stafsetning og málfræði í lagi? Hvað með málfar og orðalag? Lélegur frágangur vefsíðunnar í heild getur bent til þess að farið sé frjálslega með staðreyndir.

Hvers konar vefur ef þetta?
Er viðkomandi vefur fréttavefur, blogg, alfræðiorðabók, gagnaveita, wiki-vefur, spjallsíða eða spjallborð, Fésbókarfærsla, Tíst (Twitter), ritstýrt vefrit eða eitthvað annað?

Hvers konar vefir eru líklegastir til að vera áreiðanlegir?

Tilgangur og markhópur
Hver er markhópur vefsins? Er vefurinn ætlaður almenningi, fullorðnum, börnum, ákveðnum sérfræðingum eða áhugafólki á vissu sviði? Er honum ætlað að vera til afþreyingar, skemmtunar eða fræðslu?

Hvað segir markhópurinn um áreiðanleika upplýsinganna sem birtist á vefsíðunni? Vefsíður fyrir börn gætu haft einfaldaðar upplýsingar og vefsíður ákveðinna baráttuhópa gætu verið hlutdrægar.

Tilgangurinn með því halda úti vef getur verið margvíslegur. Honum getur jafnvel verið ætlað að koma röngum upplýsingum til skila eða koma í veg fyrir að ákveðnar upplýsingar komist til skila. Spyrjið ykkur alltaf hver tilgangur vefsíðunnar er í raun og veru.

Virkni og uppfærslur
Er vefurinn uppfærður reglulega? Eru upplýsingar á vefnum um það hvenær hann er uppfærður? Er vefurinn virkur, þ.e. er hann mikið heimsóttur og notaður?

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is