Heimildaskráningarkerfi

Til er fjöldi kerfa við að skrá heimildir og tilvísanir og mismunandi er eftir fræðasviðum og greinum hvaða kerfi er algengast að nota.

Helsti munurinn á heimildaskráningarkerfum er í grundvallaratriðum sá hvort tilvísanir eru skráðar í sviga í meginmáli textans (þetta á t.d. við um APA-snið) eða í neðanmáls- eða aftanálsgreinum. Slík kerfi eru oft kölluð Oxford-heimildaskráningarkerfi.

Meðal helstu heimildaskráningarkerfanna má nefna: 

  • APA
  • ASA
  • Bluebook
  • Chicago
  • Harvard referencing
  • MHRA
  • MLA
  • Oxford
  • Turbian
  • Vancouver system

Þá ber að hafa í huga að mörg fræðitímarit setja sínar eigin reglur um tilvísanir og heimildaskráningu. Því er mikilvægt að geta tileinkað sér mismunandi aðferðir við að skrá heimildir og vísa til þeirra.

Hér verður aðeins fjallað nánar um tvö kerfi, þau sem eru algengust við Háskóla Íslands, APA og Chicago. 

APA-snið

APA-snið er að finna í 6. útgáfu Publication Manual of the American Psychological Association (APA) en það eru útgáfureglur Samtaka bandarískra sálfræðinga (American Psychological Association, 2010). Þessum reglum er ætlað að vera til leiðbeiningar fyrir höfunda sem skrifa í fræðitímarit sálfræðinga. Nánari upplýsingar um kerfið er að finna á vef APA.

Ítarlegar leiðbeiningar sem eru lagaðar að íslenskum þörfum eru á Leiðbeiningavef ritvers Menntavísindasviðs.

Chicago-staðall

Chicago-staðallinn svokallaði er notaður í mörgum deildum Háskóla Íslands. Nýjustu útgáfu Chicago-staðals er að finna í 16. útgáfu The Chicago Manual of Style. Chicago-staðall tekur til tveggja tegunda heimildaskráningarkerfa. Annars vegar kerfi þar sem notaðir eru tilvísanasvigar í meginmáli með heimildaskrá og hins vegar kerfi þar sem tilvísanir eru staðsettar í neðanmáls- eða eftirmálsgreinum. Aftast er svo heimildaskrá.

Ritver Hugvísindasviðs hefur staðið fyrir gerð vefsvæðis sem kallast Chicago-vefurinn. Þar er að finna leiðbeiningar sem miðast við neðanmáls- og aftanmálsgreinakerfi Chicago-staðalsins.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is